15. janúar 2023
Þá er dagsetningin komin á spjöld eða spjaldtölvur sögunnar. Dagurinn sem konan sem kann ekki að steikja fisk ákvað að pikkla sítrónur sisvona. Af hverju? Spurðu helvítis kórdrenginn hann Ottolenghi. Hann þarf endilega að nota pikklaðar sítrónur í fyrstu uppskriftinni í bókinni með andstyggilega titlinum Simple. Nei nei, nú verð ég að snúa vörn í sókn og neikvæðni í eitraða jákvæðni! Þegar lífið gefur þér allt, af því að þú býrð í lúxushluta heimsins, búðu þá til pikklaðar sítrónur. Við hjónin hófum leika með því að storma inn í Hagkaup í Kringlunni. Okkur vantaði afmælisgjöf fyrir sætasta frændann og ég var búin að bíta það í mig að barnið yrði að eignast apa. ,,Öll börn verða að eiga apa´´ gólaði ég á lífsförunaut minn. Skemmst frá því að segja að við fundum litla órangútu sem er næstum því jafn sæt og litli frændinn. Hugmynd mín um Hagkaup er sú að þar finnist allt, bæði apar og ergilegir hlutir í flóknum uppskriftabókum. Fyrst við vorum stödd þarna þá hófst ég að sjálfsögðu handa við að leita að ýmsu ómögulegu til að halda áfram á Ottolenghi vegferðinni. Ég fann svartan hvítlauk í krukku en ekki litlu óbermin Nigella fræin og svo fann ég líka forláta krukku til að pikkla sítrónur í.
Hér er uppskriftin ef þig langar.
Pikklaðar sítrónur
1 meðalstór krukka með smelluloki úr Hagkaup (eða bara hvaða krukkubúð sem er)
5 lífrænar sítrónur
1 falleg ólífræn sítróna úr ísskápnum
4 beyglaðar og ljótar sítrónur úr Krambúðinni
Mjög mikið af salti, hálfur bolli eða svo
Fyrst þarf að sterilísera krukkuna af því að annars fer allt í voll og þú gætir lent í því að eitra fyrir einhverjum eða finna upp nýja tegund af fúkkalyfi.
Hitaðu bakaraofn í 130°C
Í uppskriftinni sem ég las var mér tjáð að leggja dagblöð á ofnskúffuna en ég fann enga útskýringu á því athæfi og hvar finnur fólk dagblöð árið 2023? Ég þekki engann hoarder sem á 102 árganga af Mogganum heima hjá sér svo ég braut bara saman bökunarpappír og setti í ofnskúffuna.
Hitaðu krukkuna í 20 mínútur í ofninum og leyfðu henni svo að kólna á meðan þú atast í blessuðum sítrónunum. Ef þú kaupir krukku með gúmmíhring, taktu hann af til öryggis. Ég gerði það svo ég myndi ekki gera einhverjar gloríur og bræða gúmmíið eins og fáviti. Ekki gleyma að nota ofnhanska þegar þú tekur krukkuna út nema þig vanti afsökun til að fara ekki í leiðinlega vinnu næstu daga. Ef svo er, gjörðu svo vel. Brunasár handa þér.
Þvoðu sítrónurnar. Taktu þessar fimm lífrænu og þessa einu fallegu ólífrænu og skrúbbaðu þær hreinar. Skerðu af endana báðum megin. Láttu eins og þú ætlir að skera þær þversum í fjóra báta en hættu við á síðustu stundu og leyfðu þeim að hanga saman á endanum. Drussaðu salti yfir bátana eins og þú sért á launum við það.
Settu tvær msk af salti í botninn á krukkunni. Ottolenghi, sem ég ætla hér eftir að kalla Ottó og ímynda mér þýska manninn í bíómyndunum um Ottó, mælir auðvitað með kosher salti eins og ég geti bara reddað því. Ég hunsa það auðvitað og nota mitt joðbætta salt eins og venjuleg manneskja.
Settu fyrstu sítrónuna í botninn á krukkunni og kremdu úr henni safanna, taktu svo næstu og svo koll af kolli þar til þær eru allar komnar í krukkuna. Þá er komið að þessum fjóru ljótu úr Krambúðinni. Kreistu safann úr þeim ofan á þær krömdu úr krukkunni og hentu ljóta berkinum eða notaðu hann í eitthvað gáfulegt. Þegar sítrónusafinn flæðir yfir allar sex sítrónurnar í krukkunni, bættu þá við 1 msk af salti, lokaðu krukkunni og leyfðu henni að hvíla sig við stofuhita í nokkra daga. Já, þau segja nokkra daga. Ég ætla að túlka það sem þrjá daga. Á hverjum degi á að snúa krukkunni á hvolf nokkrum sinnum á dag. Eftir þrjá daga á þetta að fara inn í ísskáp og eftir þrjár vikur geturðu farið að elda flóknar uppskriftir sem eiga að verða eitthvað næs með þessum sítrónum. Ég get ekki ímyndað mér að þetta muni heppnast hjá mér í fyrstu tilraun en er mjög spennt og á meðan ég bíð í þrjár vikur þá ætla ég að komast að því hvernig á að þekkja nothæfar pikklaðar sítrónur frá eitruðum.
Bónusefni: Uppáhaldstyggjóið mitt
2 extra með lakkrísbragði
2 extra með sweet mint bragði
Þessi réttur er innblásinn af eftirlætis Pukka teinu mínu Liquorice & Peppermint. Ég nota þetta þegar ég er illa haldin af ímyndaðri sykursýki og reyni að trappa mig niður af því að borða heilan poka af trompbitum á dag. Ég myndi segja: ,,Ekki dæma mig´´ en við vitum vel það er til of mikils mælst. Auðvitað muntu dæma mig.