Bærilegur léttleiki tilverunnar
Ég nýt ýmissa forréttinda í lífinu. Til dæmis komst ég af íslenskum leigumarkaði um fertugt og prísa mig sæla í blokk þó svo ég gæti talið nasahár nágrannans ef ég horfi út um eldhúsgluggann. Önnur forréttindi, og þau sem ég ætlaði að tala um áður en ég týndist í nasaháraskógi, eru sú að ég er hrifin af janúar og febrúar. Ég lærði þetta ekki á námskeiði. Sú einfalda staðreynd að ég á afmæli í febrúar og held ennþá að dagurinn sem ég fæddist á sé sérstakur, gerir það að verkum að ég göslast yfir ísilagða polla og slabb með bros á vör. Afmælisdagurinn er annað mál. Þar kæmi heilbrigð væntingastjórnun að góðum notum og ef til vill hefði ég gott af því að fara á svoleiðis námskeið. En að káli kálanna! Hvað er að frétta af ævintýrum með Ottó? Stutta svarið er: Ekkert! Sítrónurnar eru bara að pikklast/mygla inni í ísskáp og nigellafræin eru handan frestunaráráttunnar. Ég hlýt samt að finna einhverja uppskrift sem ég ræð við. Flónið ég asnaðist til að kaupa Za’atar krydd frá ónefndu íslensku fyrirtæki og komst að því að staukurinn inniheldur miklu fleiri hráefni en Ottó litli mælir með. Samkvæmt honum á Za’atar bara að innihalda za’atarlauf, sjávarsalt, sumac og sesamfræ. Internetið er að vísu ekki fullkomlega sammála honum en mér finnst erfitt að fara ekki í einu og öllu eftir því sem trúarleiðtoginn segir. Matseðill vikunnar var heldur vandræðalegur og ég át óþarflega mikið af núðlusúpu með nokkrum undantekningum þó. Á föstudaginn fór ég á þorrablót hjá föðurættinni. Pabbi var einn af skipuleggjendunum og matarvenjur mínar þvældust fyrir eins og vanalega. Ég held að hann haldi að ég sé vegan. Móður minni tókst að láta mér líða eins og ég væri haldin afar sjaldgæfum sjúkdómi eða ofnæmi af einhverju tagi. Ég er sem sagt fiskiæta eða pescitarian og aðspurð hvað ég vildi borða á þorrablótinu þá sagði ég bara „plokkfiskur’’ út í loftið. Ég sá fyrir mér að plokkfiskur gæti alveg átt heima innan um viðurstyggilegu sviðahausana og þetta súrsaða reðursafn sem fólk virðist halda að sé ætt. Af einstakri hugulsemi hafði mamma lagt lykkju á leið sína til að redda potti af plokkfiski. En vitaskuld var pottinum ekki komið fyrir á borðinu með hinum matnum eins og ég bjóst við heldur var honum plantað beint fyrir framan mig ofan á hitara sem birtist upp úr botnlausum pokum og pyngjum mömmu. Ég sat því eins og bubbleboy með litla pottinn minn og leið eins og vanþakklátum, sérvitrum aula. Yngri frænkur mínar komu mér til bjargar og tylltu sér við borðið með aðkeypt sushi. Mamma tilkynnti að þetta væri „sniðugt’’ og að næst myndum við panta sushi. Ég hef lítið gaman af því að láta hafa fyrir mér og vona að hún gleymi sushiplaninu á einu ári. Að fenginni reynslu hef ég ekki miklar áhyggjur af því að borða þorrasushi á bóndadaginn 2024. Á hverjum jólum þarf ég til dæmis að afþakka waldorfsalat vegna þess að þessi bubbleboy er haldinn eplaofnæmi.