Biscoffkaka brjáluðu unglinganna (með breytingum frá reynslumikilli mi – Lóaboratoríum

Biscoffkaka brjáluðu unglinganna (með breytingum frá reynslumikilli miðaldra konu sem vildi ekki taka áhættu í dag)

Hráefni:

Fyrir botninn:

300g Lotus biscoff kex (má nota LU bastiogne eða annað kryddað kex ef allir á Íslandi sáuð það sama og þú á Tik Tok og ryksuguðu allt Lotus kexið úr búðunum)

50g smjör

Fyrir fyllinguna:

300 ml rjómi

1 tappi vanilludropar (tappinn af vanilluglasinu auðvitað)

250g mascarpone (lesist með tenórrödd og ítölskum hreim)

2 msk Lotus biscoff í krukku (veit ekki hvað þetta er, en kannski kemst orðið  piparkökusmjör næst því)

Fyrir efsta lagið:

200g Lotus biscoff í krukku

Aukaefni fyrir fagurkerana:

1 pakki af kringlóttum Lotus biscoff kexkökum með kremi á milli til að skreyta kökuna

Tæki og tól:

Matvinnsluvél eða eitthvað sem þú getur mulið kex með

Handþeytari eða hrærivél

Smjörpappír

Kringlótt smelluform sirka 20 cm í þvermál

Vigt eða ótrúleg reynsla og næmni fyrir magni

Desilítramál

Sleikja

Mæliskeið (set þetta með ef svo ólíklega vill til að einhver hafi aldrei í lífinu komið nálægt kökugerð. Þetta kallast tillitssemi… já og einhver áhugaverð útgáfa af hroka. Hringdu í einhvern háskólamenntaðan helst úr hugvísindadeild því ekki skil ég þessa hegðun)

Tími:

Amk 4 klst (eða 6 ef þú tekur örvæntingarfulla leit að helvítis kexinu í 5 mismunandi búðum með í reikninginn)

Leiðbeiningar fyrir fólk með heilbrigðar væntingar til eigin getu og ekki með innbyggða ofbeldisfulla ráðskonu:

  1. Skutlaðu 300g af kexi í matvinnsluvél og malaðu það í sand
  2. Bræddu 50g af smjöri 
  3. Settu smjörpappír í botninn á kringlóttu kökuformi með smellu
  4. Settu kexsandinn í skál og hrærðu brædda smjörinu saman við
  5. Helltu blöndunni í kökuformið og þjappaðu smjörkexsandinum í botninn
  6. Settu þetta í ísskáp
  7. Skutlaðu mascarpone og 2 msk af biscoff krukkugumsinu í hrærivélaskálina og hrærðu aðeins saman
  8. Helltu öllum rjómanum í skálina og þeyttu þetta saman þar til þetta er eins og ský sem þig langar að leggjast á. Passaðu þig að fá ekki störu því þá breytist þetta í dýrasta biscoff rjómaostasmjör lífs þíns
  9. Helltu rjómaskýinu yfir kexbotninn og dreifðu yfir
  10. Settu inn í ísskáp í að minnsta kosti 2 klst
  11. Bræddu 200g af biscoff smjörinu í potti við vægan eða örbylgjuofni ef þú ert þar. (Ég get því miður ekki leiðbeint þér þar sem ég kann bara að poppa í öbbanum)
  12. Leyfðu smjörinu að kólna. Mjög mikilvægt, tala af reynslu! Prófaðu að henda þessu í frystinn ef allt fer í fokk. 
  13. Helltu því yfir rjómaskýskökuna sem beið þín svo undurfögur og blíð
  14. Raðaðu Lotus biscoff kringlótta kexinu allan hringinn ofan á kökuna
  15. Skutlaðu þessu aftur í ísskápinn þar til þú þarft að fara í veisluna eða gestirnir mæta eða þar til kemur að þeirri stund sem þú munt borða þetta með stórri skeið yfir uppáhaldsþættinum þínum 
  16. Klappaðu þér á bakið fyrir vel unnin störf

Leiðbeiningar fyrir fólk í ruglinu sem lítur á sig sem nútíma Sýsifus nema með litla ofbeldisfulla ráðskonu á bakinu sem segir þeim að vera dugleg á meðan þau velta steininum upp brekkuna aftur og aftur:

  1. Skutlaðu 300g af kexi í stóran plastpoka sem þú getur lokað og lemdu það með kökukefli eða hamri þar til öll vonbrigði lífs þíns hafa gufað upp
  2. Bræddu 50g af smjöri
  3. Settu smjörpappír í botninn á kringlóttu kökuformi með smellu
  4. Settu kexsandinn í skál og hrærðu brædda smjörinu saman við
  5. Helltu blöndunni í kökuformið og þjappaðu smjörkexsandinum í botninn
  6. Settu þetta í ísskáp
  7. Skutlaðu mascarpone og 2 tsk af biscoff krukkugumsinu í skál og hrærðu saman þar til ljósbrúnt
  8. Helltu rjómanum í skálina og hrærðu saman þar til þú færð illt í hendina. Skiptu þá um hönd þar til þú svitnar og ferð að velta fyrir þér hvort þetta sé byrjunin á hitakófstímabilinu. Horfðu ofan í skálina og veltu fyrir þér hvers vegna þú sért að þessu. Hrærðu meira og skammaðu þig fyrir að vera svona fáránlega metnaðarfull. Hugsaðu svo um fólk sem er í verri aðstæðum en þú og skammastu þín. Hrærðu meira og hugsaðu um formæður þínar sem voru hvorki með handþeytara né hrærivél og kallaðu þig svo aumingja. Hrærðu aðeins meira, finndu von kvikna þegar þetta rjómadrullan fer að þykkna. Hrærðu svo áfram þar til þetta er orðið að rjómaskýi drauma þinna. Nú er tími til að ofmetnast og monta þig við fjölskyldumeðlimi eða facetime-a vin ef þú býrð ein. Ef þau sýna ekki viðbrögðin sem þú vildir fá þá væri sniðugt að sárna aðeins
  9. Helltu rjómaskýinu yfir kexbotninn og dreifðu yfir
  10. Settu inn í ísskáp í að minnsta kosti 2 klst
  11. Bræddu 200g af biscoff smjörinu í potti við vægan hita
  12. Leyfðu smjörinu að kólna. Mjög mikilvægt, tala af reynslu! Prófaðu að henda þessu í frystinn ef allt fer í fokk. 
  13. Helltu því yfir rjómaskýskökuna sem beið þín svo undurfögur og blíð
  14. Raðaðu Lotus biscoff kringlótta kexinu allan hringinn ofan á kökuna
  15. Skutlaðu þessu aftur í ísskápinn þar til þú þarft að fara í veisluna eða gestirnir mæta eða þar til kemur að þeirri stund sem þú munt borða þetta með stórri skeið yfir uppáhaldsþættinum þínum 
  16. Klappaðu þér á bakið fyrir vel unnin störf
  17. Skrifaðu í minnisbókina: Muna: Kaupa hrærivél, hætta að hata mig


2 klst Tik Tok ævintýrið

Kær vinkona mín sendi mér skilaboð á messenger með orðunum: Sá þetta og hugsaði til þín. Þar sem mér þótti vænt um skilaboðin og elska gott grín þá ýtti ég á linkinn en komst að því að ég þurfti að downloada Tik Tok til að þiggja sendinguna. Við tók 2 klst doomscroll eða dauðaskrum. Áður en ég eyddi appinu að eilífu þá rak ég augun í þessa girnilegu köku. Hér kemur svo játning dagsins: Þetta er ekki uppskriftin sem ég sá. Í uppskriftinni á Tik Tok muldi manneskjan 400 g af kexinu, blandaði því svo við 350 ml af nýmjólk og 2 tsk af lyftidufti og bakaði svo í ofni við 170°C í 20 mínútur. Úr varð þessi fagra kaka. Eftir að kakan kólnaði var rjómadraumurinn sem ég lýsti hér að ofan settur ofan á, svo brædda biscoffsmjörið og að lokum overkill kexið sem skraut. Þar sem ég ætla að mæta í veislu á eftir með þessa köku þá þorði ég ekki að treysta random unglingi á internetinu og trúði því hreinlega ekki að það væri hægt að drulla saman kexi, mjólk og lyftidufti og baka það án þess að enda með eitthvað ógeð. Ég gerði því botninn í staðinn úr gamalli ostakökuuppskrift frá konu sem ég þekki ekki en hún heitir Ragna og lumar á uppskrift að bakaðri NY ostaköku sem ég hef notað ótæpilega í gegnum tíðina. Ég sleppti að vísu 50 g af sykri í botninn því kexið er svo djöfulli sætt að það væri glæpur gegn líkamanum að bæta því við þessa dísætu köku. Einnig þarf að taka fram að ég er ekki búin að bjóða upp á kökuna. Ég bæti við lýsingu á viðtökunum um leið og veislunni lýkur. Ef til vill mun systir mín neita að tala við mig framar þar sem ég tók mér það bessaleyfi að mæta óumbeðin með köku í afmæli. Mig langaði bara svo að prófa þessa köku og þar sem ég þekki systur mína út og inn þá veit ég að hún fór í Hagkaup eða Bónus og keypti súkkulaðiköku sem hún elskar en ég fyrirlít. Ég get ímyndað mér að þú hugsir núna: Guð minn góður hvað ég er fegin að þessi hrokafulli og afskiptasami kökufasisti sé ekki systir mín. Þú hefur mjög líklega rétt fyrir þér en það er of seint að gera eitthvað í þessu núna. Ég verð ekki betri manneskja en þetta. Ættingjar mínir eru nú oftast frekar sáttir þegar ég mæti með kökur. Kökubakstur er eitt af fáum áhugamálum mínum því mér tókst einhvern veginn að breyta öllum hinum hugðarefnunum í vinnu og þannig fjarlægði ég smá af amornum úr amatörismanum. En það er ekki hægt að borða kökuna og halda henni um leið svo ég ætti ekki að kvarta. Kvart er reyndar eitt af áhugamálunum sem eftir standa svo það er vandlifað.