Draumur rugludallsins rætist – Lóaboratoríum

Draumur rugludallsins rætist

Draumurinn er ekki sá að mig hafi innilega langað að vanhæfi fjármálaráðherrann myndi gera sér lítið fyrir og rassa tvo ráðherrastóla í viðbót, ónei ónei. Myndasagan tengist draumi mínum ekki vitundarögn. Hún er bara athugasemd um pólitískar sviptingar líðandi stundar.

Minn draumur er mun ánægjulegri og snýst hann um að vera eins og manneskjan sem fann óvart upp karamelluna, sumsé að eldhúsamatörismi minn og klaufaskapur verði til þess að æt nýjung líti dagsins ljós, mannkyninu til heilla og mikillar gleði. Augljóslega tel ég að það hafi tekist, annars væri ég ekki að þvaðra þetta og bía um leið út lyklaborðið með fitugum fingrum mínum.

Kremið sem breytti öllu

Inn um glugga í blokkaríbúð í austurbænum blasir við huggulegt eldhús. Innréttingin er frá sjötta áratuginum en fyrri eigendur hafa sprautulakkað hana hvíta og hækkað borðplötuna til að koma til móts við sig. Í myrkrinu á bak við innréttinguna liggja skottur í silfruðum andarslitrum. Húsfélagið ákvað að eitra fyrir þeim nokkrum vikum fyrr þó að meindýraeyðirinn hefði sagt að þetta gerðu bara Íslendingar á meðan Danir lifi í sátt með sínum meinlausu pöddum. Silfurskotturnar finna á sér að eitthvað magnað er í þann mund að eiga sér stað á yfirborðinu en þeim endist ekki ævin til að upplifa undrið. Húsmóðirin, ein þeirra fáu sem amaðist ekki við tilveru þeirra þrátt fyrir að hafa aldrei getað látið ofan í sig sardínur eftir að hafa séð óvenju stóra silfurskottu, stendur sveitt og ráðvillt yfir kitchenaidvél og blótar. Dagurinn hefur liðið áfram í skrykkjóttum takti einbeitingarskorts með tilheyrandi kvíða og hálfkláruð verkefni liggja víðast hvar á borðum, leifar af ágætis byrjunum.

Nokkrum dögum áður bauð húsmóðirin fram krafta sína við að baka afmælistertu handa átján ára systursyni sambýlismannsins en svo tók frestunaráráttan við. Þrettán árum áður hafði hún bakað afmælistertu handa sama afmælisbarni og lagt á minnið að drengurinn hefði dálæti á gulrótarkökum og gulrótarköku skyldi hann því fá. Á þrettán árum hefur henni tekist að gleyma hversu tímafrekt það er að gera gulrótarköku, sérstaklega þegar uppskriftin heimtar þrjúhundruðogfimmtíu grömm af rifnum gulrótum og bæði ísskápurinn og hveitikrukkan eru tóm. Mörgum tímum síðar þegar kakan er loksins bökuð með tilheyrandi poti og athugunum á hvort mylsnur loði við prjón, er klukkan orðin allt of margt og húsmóðirin að verða of sein í pílates. Hún veltir fyrir sér hvort hún ætti að sleppa pílates til að búa til kremið á kökuna en eitthvað við þá forgangsröðun situr skakkt og æðir hún því berfætt í ljótum leggings út í bíl og keyrir á bensínljósinu upp í Síðumúla.

Rúmum klukkutíma síðar er hún mætt aftur í eldhúsið og sér til skelfingar tekur hún eftir að þó svo að hún hafi munað eftir að taka smjörið úr ísskápnum, þá situr rjómaosturinn ennþá nákaldur á hillu í ísskápnum. Það er enginn tími til að vera með svona smámunasemi, hugsar hún og dembir smjöri, köldum rjómaosti og flórsykri í hrærivélaskálina. Hægt og rólega áttar hún sig á mistökunum og horfir á rándýra kekkjótta drullu spóla hring eftir hring í skálinni. Guð almáttugur, hvað hef ég gert? æpir konuræfillinn og drussar vanilludropum salti og sítrónusafa á klúðrið eins og það sé góð hugmynd. Sambýlismaðurinn er kominn heim og lætur lítið fyrir sér fara eftir að hafa lent í þeirri óþægilegu reynslu að konan urraði á hann þegar hann spurði hvort hann gæti gert eitthvað til að hjálpa.

Djúpt í hugarfylgsnum húsmóðurinnar kviknar sem betur fer ljós og stiklur úr raunveruleikaþáttum birtast. Síðastliðin áratug hefur hún setið í tungusófa og horft á fólk keppa í bakstri og fylgst með sigrum þeirra og ósigrum og leiðinni hefur hún ósjálfrátt drukkið í sig hafsjó af upplýsingum. Hitaðu kremið, segir undirvitundin og konan hálffyllir eldhúsvaskinn af sjóðandi vatni, setur hrærivélaskálina ofan í og hrærir í kreminu. Streitan minnkar um leið og kremið bregst við hitabreytingunni. Kekkirnir leysast upp og allt virðist vera á réttri leið en þá tekur drambið yfir. Djöfull er ég mikill snillingur, muldrar konan og gætir ekki að sér. Sem dáleidd getur hún ekki hætt að hræra kremið og smám saman breytist það í glansandi skólp. Ónei, gólar konan. Þurfum við ekki að mæta bráðum í afmælið? spyr sambýlismaðurinn lágt og uppsker meira urr. Húsmóðirin hleypur með kremið og skutlar inn í ísskáp og rekur um leið augun í pela af rjóma. En ef ég þeyti bara rjóma og reyni að bjarga þessu? hugsar hún en ákveður að sleppa oflæti og stælum í þetta sinn og blandar bara hluta af kremdrullunni við rjómaslettu. Þá hefst upprisan og hún hrærir rjómann varlega við helminginn af kreminu og horfir á efnið ummyndast. Innan skamms blasir við full skál af bragðbesta gulrótarkökukremi sem um getur og konan tekur til við að þekja kökuna með því. Nokkrum andartökum síðar situr konan með sturlunarglampa í augunum í bíl á leiðinni í afmæli þar sem henni er svo fagnað. Hún horfir með áfergju á veislugesti fá sér sneið og áreitir þau svo með endalausum lýsingum af eldhússigri dagsins. Hún reynir að vera hógvær en öll viðstödd sjá í gegnum hana en þau dæma hana ekki því þau eru í þann mund að borða bestu gulrótarköku sem þau hafa smakkað. 

Gulrótarkaka á tveimur hæðum 

(Fengið af síðunni Pretty, simple, sweet fyrir utan kremið)

Kakan

2 1/2 Bolli (315g) sigtað hveiti

2 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

1 tsk salt

1 1/2 tsk kanill

1/2 tsk múskat

1/4 tsk negull

1 1/8 (270ml) matarolía, ég notaði repjuolíu af því að hún var til

1 bolli (200g) sykur

1 bolli (200g) púðursykur 

4 stór egg, ég veit ekki hvað stór egg þýðir, nota bara egg

1 tsk vanilludropar

350g (6 stk sirka) rifnar gulrætur, ég notaði stóru götin á rifjárninu

1 bolli grófsaxaðar pekanhnetur (í uppskriftinn er líka minnst á valhnetur en ég átti þær ekki og fíla hvort eð er pekanhnetur betur… í allan vetur Pétur)

Svo stendur að það eigi að setja 1/2 bolla af rúsínum og eitthvað minnst á kókos en ég hata rúsínur svo ég sleppti því og ég nennti ekki að flækja málið með kókos.

Kremið

450g rjómaostur (við stofuhita fjandinn hafi það)

1/2 bolli (115g) smjör

(Það stendur ósaltað í uppskriftinni en ég er á móti ósöltuðu smjöri og neita því að taka þátt í svoleiðis bulli)

1 msk sítrónusafi

2 bollar (230g) Flórsykur (sem ætti auðvitað að heita púðursykur eða duftsykur)

1 tsk vanilludropar

1/4 tsk salt

1/4 l  þeyttur rjómi (má vera 1/2 l ef þú vilt þekja alla kökuna, ég notaði á endanum bara helminginn af kreminu til að blanda við rjómann af því að mér fannst eitthvað fallegt við að sjá í kökuna í stað þess að þekja hana alla með kremi.)

Aðferð:

1. Hitaðu ofninn í 180°C, smyrðu tvö lausbotna hringlaga kökuform, sirka 20cm í þvermál og settu bökunarpappír í botninn. Það er næs að klippa pappírinn í rétta stærð svo hann passi inn í hringinn en ekki troða honum eins og einhver brjálæðingur.

2. Blandaðu saman sigtuðu hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil, múskati og negul í stórri skál.

3. Hrærðu saman, olíu, sykri, púðursykri, eggjum og vanilludropum í meðalstórri skál og helltu svo yfir þurrefnin í stóru skálinni. 

4. Helltu blöndunni í skálina með þurrefnunum og hrærðu lauslega þar til allt er blandað saman. Ekki hræra of mikið. 

5. Sáldraðu pekanhnetunum við deigið og blandaðu varlega saman við.

6. Helltu deiginu í kökuformin. Bakaðu í 30-35 mínútur og stingdu prjóni eða tannstöngli í miðjuna. Ef einungis nokkrar rakar mylsnur hanga í prjóninum þá er kakan tilbúin. Þetta tók aðeins lengri tíma hjá mér og ég hef ekki hugmynd um hvers vegna.

7. Leyfðu kökunni að kólna í amk 15 mínútur og renndu hnífi meðfram kökuforminu til að losa hana frá því. Taktu kökurnar úr formunum og leyfðu þeim að kólna algjörlega, helst á vírneti eða einhverju sem þú notar til að kæla kökur.

Þá er komið að aðalatriðinu og svo skal ég hafa mig hæga.

Le Krem!

1. Hrærðu rjómaost í hrærivél þar til hann er mjúkur. Bættu við smjörinu og sigtaðu flórsykurinn yfir og þeyttu saman. Helltu útí vanilludropunum og sítrónusafanum og sáldraðu saltinu yfir þeytivinduna. Ef þú vilt klína þessu á kökuna núna þá er það bara gott mál og þér í sjálfsvald sett en ef þú kýst hinsvegar að fara í óvissuferð og upplifa undur skaltu lesa áfram.

2. Bónuslevel! Settu hrærivélaskálina í heitt vatnsbað og hrærðu í kreminu þar til það verður eins og jógúrtglundur. Settu inn í ísskáp í smá stund.

3. Þeyttu rjóma og blandaðu svo varlega samanvið helminginn af kreminu þar til allt er blandað í glitrandi harmóníu eins og bak á silfurskottu. Jóðlaðu þessu fyrst á neðri botn kökunnar, settu efri hlutann ofan á og glussaðu svo restinni efst á kökuna. Ef þú vilt þekja allt helvítis draslið þá þeytirðu 1/2 lítra af rjóma og blandar við allt kremið. Svo gefurðu nágranna þínum afganginn af kreminu af því að þetta er allt of mikið krem.

4. Skreyttu með pekanhnetum og ekki setja eina sneið af sítrónu ofan á því þó hún sé fögur mun hún leka safa og það er frekar pirrandi að hafa mígandi sítrónur ofan á undrinu.

Tilvalið að taka með í veislur eða á kaffistofur til að eyðileggja megrunarkúra hjá samstarfsfólki þínu. Njóttu vel.