Farster Philip brauð
Fyrirvarar:
1. Vegna hefunartímans þá myndi ég segja að þetta væri helgarbrauð nema ef þú ert sjálfstætt starfandi, í vaktavinnu, hætt að vinna eða einhverra hluta vegna lifir utan hins alltumlykjandi 5:2 8klst á dag kerfið.
2. Þetta brauð er mun auðveldara ef þú átt steypujárnspott en ég efast ekki um að það sé hægt að baka þetta með öðru móti. Fólk sem fann upp brauð átti væntanlega ekki steypujárnspott.
3. Maðurinn sem gaf mér þessa uppskrift sagði að það ætti ekki að baka brauð í þrumuveðri. Hann minntist ekkert á lægð.
Hráefni:
500g hveiti og meira til að sáldra
1/2 tsk þurrger
1 1/2 tsk salt
4 1/2 dl volgt vatn
(Ha? Er þetta eina hráefnið? spyrðu kannski stundarhátt út í loftið. Já, þetta er brauð.)
Aðferð:
-Helltu þurrgerinu í volga vatnið og leyfðu því að leysast upp.
-Blandaðu svo hveitinu og saltinu saman við og hrærðu lítillega eða þar til hvergi þurran blett er að finna.
-Láttu hefast í 12-14 klst í skál eða dalli undir volgu viskustykki og plastpoka ef þér tekst að finna þannig á þessum síðustu og verstu. Ef þú ert talnablind manneskja með klukkutregðu eins og ég þá ætla ég að einfalda líf þitt og segja þér að ef þú hendir í deigið klukkan 8 um kvöld þá geturðu til dæmis byrjað að baka það um 10 leytið næsta morgun og þá áttu nýtt brauð um klukkan 11 og getur borðað snemmbúinn hádegismat eða síðbúinn morgunmat með nýju ilmandi brauði.
-Leggðu bökunarpappír á borð og sáldraðu yfir það hveiti, alveg slatta
-Hitaðu ofninn í 250°
-Skafðu deigið úr dallinum og sturtaðu á bökunarpappírinn
-Brjóttu saman deigið frá öllum hornum inn að miðju
-Snúðu slétta hlutanum af deiginu upp og settu í steypujárnspottinn og lokið yfir
-Bakaðu með lokinu á í 30 mín
-Settu á þig pottaleppa í guðanna bænum. Taktu lokið af pottinum og bakaðu brauðið áfram í 15 mínútur
Sagan af brauðinu og vangaveltur um hvers vegna mars sökkar svona feitt
Í einni af fjölmörgum tónleikaferðalögum okkar félaganna í FM Belfast, enduðum við í uppsveitum Danmerkur. Á tónleikastaðnum var maður sem gekk undir nafninu Farster Philip eða Philip föðursystir. Ásamt veitingastaðnum sem hann rak var hann annað hvort með sjónvarpsþátt eða blogg eða eitthvað, a.m.k. einhvers konar Jói Fel eða Gústi bakari þeirra Dana. Philip var málglaður og peppaður ljóshærður maður og hafði miklar áhyggjur af því að við værum ekki nægilega hávær og drykkfelld í baksviðinu. Hann brá því á það ráð að bera í okkur endalausa drykki og spyrja í sífellu: Eruð þið ekki hress? Á meðal drykkjanna voru óteljandi litlar vodkaflöskur með mismunandi bragði. Þar á meðal vodka með vanillubragði og komumst við þá að því að hann var með tonkabaunir á heilanum og talaði um þær af ástríðu. Af sömu ástríðu talaði hann um eitthvað kjöt sem hann lýsti með orðunum: “it’s so soft, you can chew it with your eyelids” og hann kleip mjúklega loftið og breytti höndunum á sér í tyggjandi augnlok. Þrátt fyrir áhyggjur Philips um að við myndum ekki vera nægilega lífleg á sviði, voru tónleikarnir mjög skemmtilegir og mikið stuð. Philip var svo glaður að daginn eftir bjó hann til madpakke handa okkur. Brúnt mjúkt maltbrauð með osti sem var svo góður að íslenskt ostagerðarfólk ætti að skammast sín. Kvöldið áður höfðum við fengið annað gott brauð hjá Philip og ég gat ekki hætt að tala um það. Hann þuldi því upp fyrir mig uppskrift að einföldu hveitibrauði sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég á steypujárnspott sem ég hata smá því hann ryðgar alltaf því ég get ómögulega ryðvarið hann með einhverri flókinni aðferð sem ég nenni ekki að lesa.
Ég ætlaði að ranta yfir því hvers vegna mars sökkar svona feitt en ég komst í svo gott skap við að rifja upp Philip að ég nenni því eiginlega ekki. Vorið er bara dyntótt og passar ekkert við pastellitaðar páskaskreytingar. Það væri eiginlega meira viðeigandi að nota hrekkjavökuskraut á þessum árstíma. Allt er á litinn eins og niðurdrepandi Taggartþáttur. En ég neita að segja eitthvað meira af því að ég er að hugsa um glaðlynda danska föðursystur og nýbakað brauð.