Focaccia þér eggaldin parmesanið þitt
Þar sem matarblogg eru yfirleitt svo lengi að koma sér að efninu að ég ærist, ætla ég bara að byrja á því að dúndra inn uppskriftum og svo ræður þú hvort þú lest þvaðrið sem kemur á eftir.
Focaccia brauð (uppskrift fengin hjá mesta matgæðingi sem ég þekki honum Martin)
Taktu frá 2 klst í baksturinn og gerðu þér þann greiða að bjóða einhverjum í mat því þetta er viðbjóðslega gott brauð og erfitt að hemja sig og ég get ekki borið ábyrgð á því að þú úðir í þig heilu eldföstu móti af brauði.
12 g þurrger (sirka msk)
600g hveiti (helst hvítt því það er best og ekkert rugl)
500 ml volgt vatn
1 dl ólífuolía (plús 50 ml síðar)
1 msk hunang/hlynsíróp/sykur
1 tsk salt (mætti alveg bæta í ef þú ert Salti Pétur)
Sjávarsalt eftir smekk
Timjan/oregano/rósmarín eftir smekk
- Hrærðu saman þurrgeri, sírópi(ég segi það því ég á aldrei hunang og finnst þægilegra að hafa sætuna í vökvaformi) og volgu vatni í skál og leyfðu að freyða um stund.
- Blandaðu hveiti og salti í annarri skál
- Hrærðu gerblöndunni við hveitið og bættu við 1 dl af ólífuolíu
- Láttu deigið rísafjörður afsakið… rísa í 50-60 mín í skál undir volgu viskustykki
- Hér er tilvalið að brjóta saman þvott eða undirbúa einhvern rétt sem væri næs með focaccia t.d. salati, pasta eða eggaldin parmesanið sem þú færð uppskriftina af eftir augnablik eða horfa á einn þátt af Orkestret á RÚV eða hringja í einhvern sem þú hefur ekki heyrt í lengi
- Settu deigið í eldfast mót svona 20 cm breitt, bara svona týpískt eldfast mót og klíndu deiginu út í alla kanta helltu 50-60ml (hálfur dl) af ólífuolíu yfir deigið og leyfðu því að rísa í 25-30 mín undir viskustykki eða viskastykki ef þú hneigist í þá átt
- Hér er tilvalið að leggja kapal og byrja á nýjum Orkestretþætti eða þrífa sóðaskapinn eftir þig og stilla bakaraofninn á 220°C uppi og niðri hita
- Gerðu dældir í deigið með fingrunum. Þetta er langskemmtilegasti hluti uppskriftarinnar ef þú ert ekki klísturfælin manneskja. Stráðu sjávarsalti og kryddinu sem þú átt. Ég get ekki þulið langan lista af heppilegum kryddum en ég átti bara timjan og það var bara drullunett svo gerðu það bara ef þú vilt. Bættu við meiri ólífuolíu þar til litlir pollar myndast ofan á deiginu og hringdu í heimilislækninn
- Skutlaðu þessu inn í ofn og bakaðu við 220°C í 20-22 mín eða þar til brauðið er gullinbrúnt
Eggaldin parmesan
2 stór eggaldin (fást til dæmis í Costco en ekki fara fyrsta laugardag í mánuði nema þú hatir þig eða elskir þvögu)
2 egg (ég skil að vísu ekki þessa mælingu því það var hellingur eftir af vökvanum svo kannski er 1-1 1/2 egg feykinóg)
1/4 bolli mjólk (sjá eggjaráð)
1 1/2 bolli pankó raspur
1 1/4 bolli rifinn parmesan (má vera ódýrari týpan, ég sé ekki að það skipti nokkru máli)
1 msk Timjan
2 tsk oregano
1/2 tsk chilliflögur (ath ég átti hvorki oregano né chilliflögur og setti bara 2 tsk af einhverju steikarkryddi sem var með chiliflögum og það var mjög næs og ég ætla að gera það aftur og enginn getur stöðvað mig)
1/2 tsk sjávarsalt
svartur pipar
Ólífuolía fyrir druss
800 ml af marínarasósu (eða bara pastasósu, ég geri hana svona: steiki heilan smátt skorinn lauk upp úr smjöri og olíu, sletti 2 dósum af tómatdrullu á pönnuna og svo smáttskornum hvítlauk eftir smekk, svo set ég 1 msk af mangóchutney (leynitrix frá mömmu hans Hulla) og slatta af þurrkuðum basil og 1/2 tsk af salti og læt bubbla í einhvern tíma)
2 stórir mozzarellaboltar
1/3 bolli fersk basillauf til að setja ofan á eftir bakstur (ég átti þetta ekki og það kom ekki að sök)
- Hitaðu ofn í 200°C
- Skerðu eggaldin(in) eggöldin? í sirka 0,5 eða 1 cm jafnar sneiðar
- Hrærðu saman egg og mjólk í skál
- Blandaðu pankóraspinum, 1 bolla af parmesan og öllu kryddinu í aðra skál
- Dýfðu eggaldinsneiðunum í eggjablönduna og svo í raspinn og leggðu á bökunarpappírsklædda bökunarplötu jeminn einasti
- Drussaðu ólífuolíu á herlegheitin
- Bakaðu eggaldinið eða eggöldin í 18 mín eða þar til gyllt
- Slettu 1 bolla af marinarasósunni í eldfast mót og dreifðu jafnt yfir
- Raðaðu helmningnum af eggaldininu (jesús) ofan á sósuna og raðaðu skornum mozzarellasneiðum yfir
- Endurtaktu eggaldin, sósu, mozzarella dæmið og settu svo restina af parmesaninu yfir, ég bætti við osti sem var að mig minnir frekar tæpur Gotti úr ísskápnum af því að ég elska nýtingu og ost
- Drössaðu ölífuölíu öfan á þetta ög hentu þessu inn í öfn í 20-22 mín eða þar til östurinn bubblar og brúnast
- Njóttu vel og kannski mun barnið þitt smakka þetta þó svo að mitt barn hafi ekki komið nálægt þessu og fékk bara upphitað pasta
Hvernig nennti ég að skrifa þetta? Jú, því ég trúi á þennan mat. Ég fór í Costco til að kaupa bubbluplast sem var ekki til og endaði í heimsins lengstu röð með fulla körfu af grænmeti. Ég er að reyna að borða betri mat og hætta að haga mér eins og ég sé 18 ára tölvuleikjaspilari. Á mánudaginn trylltist ég svo af frestunaráráttu af því að ég átti bara eftir að teikna eina mynd fyrir barnabók sem ég er að myndlýsa fyrir Ævar Þór. Ég fann hvernig vitundin skiptist í tvennt: skynsömu mig sem horfði á sturluðu mig æða frá skrifborðinu og inn í eldhús að elda eins og ég hefði jafn mikinn tíma í eldamennsku eins og og ítölsk húsmóðir árið 1950. „Viltu nú ekki klára að teikna þetta smáræði vinan?” spurði ég mig varlega en náði ekki sambandi við villidýrið sem þeyttist upp um alla veggi í eldhúsinu. Um klukkan sjö kíkti minn heittelskaði inn í eldhúsrústirnar, leit í kringum sig og spurði: „Ertu með skilafrest í dag?“ Sem betur fer var mesta æðið runnið af mér svo ég hafði húmor fyrir þessari sneið á minn kostnað. Þetta er ansi algengt hegðunarmynstur hjá mér og ef hann hefði ekki tekið eftir því eftir 20 ára sambúð þá væri nú eitthvað athugavert við athyglisgáfu mannsins. Hann er yfirleitt duglegri að elda heldur en ég af því að ég á svo erfitt með að elda eitthvað hversdagslegt án þess að fyllast lífsleiða og depurð. Rétt fyrir átta skutlaðist ég svo niður í bæ að hitta félaga mína í SÍUNG sem eru ekki samtök um eilífa æsku og botox heldur samtök íslenskra barna og ungmennabókahöfunda. Það var fáránlega skemmtilegt eins og vanalega þó svo ég hafi auðvitað overshare-að einhverjum glötuðum 20 ára gömlum djammsögum á milli þess sem ég reyndi að drepa ekki sessunaut minn með hvítlauksropum. Já, vel á minnst. Uppskriftirnar hér að ofan gætu valdið ropi en það gæti líka hafa verið 800 króna sódavatnið sem ég keypti grandalaus á 101 Hótel.