Gullkaka
Gullkaka og ekki orð um það meir
Kakan:
½ bolli volg mjólk
1 msk smjör (brætt)
2 egg (við stofuhita)
1 bolli sykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt
1 bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
Gullið:
6 msk smjör
10 msk púðursykur
4 msk mjólk
8-10 msk kókosmjöl
(Ath upphaflega uppskriftin að kókosgullinu sem ég fann var helmingi minni og það er bara nánasarlegt og frekar glatað og þar var líka talað um 3-4 msk af kókos en ég ætla ekki að spara kókos fyrr en það kemur aftur kreppa. Þar að auki er alltaf talað um smjörlíki en ég á aldrei smjörlíki svo ég notaði smjör.)
Tæki og tól:
Hrærivél eða handþeytari (eða einhver algjörlega nötts ættingi eða nágranni.)
Smelluform c.a. 20 cm í þvermál
Bökunarpappír klipptur í hring og settur í botn formsins
Aðferð:
-Hitaðu ofninn í 175°C uppi og niðri.
-Hitaðu ½ bolla af mjólk og bræddu 1 msk af smjöri í potti. Leyfðu að kólna aðeins.
-Þeyttu saman 2 egg (við stofuhita) og 1 bolla af sykri í hrærivél þar til blandan er létt og ljós.
-Sigtaðu nú 1 bolla af hveiti, 1 tsk lyftiduft og ½ tsk salt í egg og sykurblönduna og hrærðu hægt saman.
-Blandaðu 1 tsk af vanilludropum við mjólkina og smjörið í pottinum. Passaðu að það sé ekki mjög heitt þegar þú blandar því við deigið í hrærivélinni. Best er að setja um það bil kúfaða matskeið af deiginu í mjólkurblönduna og hræra við. Þetta er allt gert til að búa ekki óvart til eggjaköku.
-Hrærðu deigið þar til allt er blandað saman. Helltu svo deiginu í smelluformið og inn í ofninn og bakaðu í 25 mínútur eða þar til bakan er byrjuð að gyllast að ofan.
-Stingdu prjóni í kökuna og athugaðu hvort hún sé bökuð í gegn
-Á meðan kakan er að bakast þá seturðu kókosmjólið, smjörið, mjólkina og púðursykurinn í pott og hrærir saman þar til sykurinn er orðinn að drullu, smjörið brætt og blandan byrjuð að bubbla.
-Taktu kökuna úr ofninum og settu kókosgullið ofan á og skelltu aftur í ofn í 6 mínútur eða þar til kókosinn er aðeins byrjaður að taka við sér.
-Leyfðu kökunni að jafna sig og kólna í forminu í svona 20 mínútur amk eða þar til kókosinn er búinn að kólna nóg þannig að kakan liðist ekki í sundur og eyðileggi fyrir þér daginn
-Gott að bera fram með rjóma eða vanilluís
Aukaskref (valkvæð):
-Fáðu afkvæmi þitt til að hjálpa þér að baka kökuna þar sem að snemmunglingurinn bað nú einu sinni um hana
-Reyndu fyrst að sannfæra afkvæmið um að fara út í búð og kaupa poka af möffins til að fara með í staðinn í pálínuboð skólans á morgun af því að þú nennir ekki að gera neitt nema lesa glæpasöguna sem þú dast inn í í fyrradag
-Ekki gleyma að segja afkvæminu söguna af því þegar að það bað þig um að fá að fara með eplaköku í síðasta pálínuboð og nennti ekki að hjálpa þér og þú endaðir á því að skræla eplin og gera allt sjálf seint um kvöld og svo kom kakan hálfétin til baka úr skólanum
-Maldaðu í móinn en mundu að það er svo stutt þangað til að blessað barnið vill ekkert með þig hafa. Svo er bara gaman að baka saman
-Minntu snemmunglinginn aftur á að hann ætlar að hjálpa þér
-Leggðu þig fram við að halda afkvæminu við efnið
-Horfðu fram hjá því þegar barnið ákveður að nota tímann til að lemja í sundur harðnaðan púðursykur af því að það er skemmtilegra en að fara eftir uppskrift með afskiptasömu móður sinni sem er alls ekki skemmtileg þegar hún bakar
-Gargaðu þegar þú kemst að því að gólfið er allt út í sykri og barnið er horfið inn í herbergið sitt
-Náðu í afkvæmið og segðu því að þrífa upp eftir sig
-Skúraðu gólfið því að börn kunna ekki að þrífa almennilega
-Kláraðu að baka og þrífa
-Taktu eftir en aðeins of seint, að barnið rak sig í stillinguna á ofninum og hitinn er því 200°C en ekki 175°C og kakan því byrjuð að brúnast allt of hratt og ekki orðin bökuð í miðjunni
-Opnaðu ofninn og reyndu að kæla hann með þolinmæði sem þú býrð ekki yfir á þessum tímapunkti
-Gleðstu yfir því að afkvæminu finnst gaman að búa til gullið sem á að fara ofan á kökuna
-Fáðu samviskubit yfir að vera micromanaging kröfuhörð manneskja og fáðu tár í augun þegar yndislega afkvæmið þitt býður þér vatnsglas
-Mundu svo að leggja inn á framtíðarreikning barnsins fyrir sálfræðitímum í framtíðinni
Aukaefni:
Tengdafjölskylda mín kallar kökuna sjónvarpsköku en fjölskylda mín kallar hana gullköku. Deilurnar um nafn kökunnar voru á gamansömu nótunum en ég er svo mikill besserwisser að ég linnti ekki látum fyrr en ég fann uppskrift að gullkökunni heima hjá ömmusystur minni í Bitrufirði. Sigrihrósandi tók ég mynd af uppskriftinni og benti tengdafjölskyldunni á að hún væri skrifuð fyrir tíma sjónvarpsins. Þú getur því þakkað forsjóninni að vera hvorki skyld mér né tengd mér fjölskylduböndum.