Hvaða súra lykt er þetta? – Lóaboratoríum

Hvaða súra lykt er þetta?

Æ já, hún. Þetta er víst lyktin af smjördeiginu sem verður að nota fyrir morgundaginn. Er ég vond manneskja ef ég segi fjölskyldunni minni ekki frá daufu naflalyktinni sem leggur frá deiginu? Ottolenghi verður að hoppa upp í rassgatið á sér í dag vegna þess að ég bókstaflega neyðist til að nota þetta smjördeig. Annars gengur langamma mín aftur og skammar mig fyrir matarsóun. Það er sorglegt frá því að segja að þetta tiltekna deig var keypt til að nota í vegan wellington áramótasteikina en ég keypti of mikið deig. Sorglegt vegna þess að hún misheppnaðist auðvitað. Að sjálfsögðu var hún mjög falleg vegna þess að ég er ótrúlegt en satt frekar laghent við að flétta deig en guð einn má vita hvers vegna hún varð svona undarleg á bragðið. Ekki beint of sölt en bara of bragðmikil einhvern veginn. Mig grunar að ég hafi verið helst til fífldjörf þegar ég lúðraði miso paste í sveppaklessuna eins og ég vissi hvað ég væri að gera. En aftur að deginum í dag. Ég er mikill quiche maður og gúglaði því hvernig væri best að gera smjördeigsútgáfu af þeim sómarétti. Egg, mjólk, ostur og eitthvað drasl úr grænmetisskúffunni, sleppa brokkólí öðru megin fyrir matvönd börn og voilá! Verst að ég þurfti að drífa mig á fund svo ég skyldi þessa naflaböku eftir í ofninum. Þegar heim var komið sá ég að þetta hafði greinilega höfðað til mannskapsins. Fatið hálftómt og enginn með matareitrun! Klúðurkokkurinn hefur hafið sigurgöngu sína.

Hér er uppskriftin ef einhver kærir sig um:

Smjördeigs quiche með tilfallandi grænmeti

Hitaðu ofninn í 180°C

Tíndu svo til:

1 lauk og saxaðu smátt

1 skál af soðnum kartöflum úr ísskápnum, afhýddu þær og skerðu í sirka fernt (ef þú átt þetta ekki til þá er fínt að sjóða nokkrar kartöflur í 20 mín og dúndra þeim svo í kælinn á meðan þú skerð grænmetið)

1 lítinn brokkólíhaus. Skerðu í hæfilegar stærðir, hálfan þumlung? (Þetta má líka vera blómkál eða eitthvað grænmeti sem þú fílar)

2 hvítlauksrif skerðu smátt

1 tsk paprikuduft

Smá salt

Steiktu laukinn á pönnu þar til hann er linur, sturtaðu paprikunni yfir laukinn í pönnunni og rótaðu í þessu örlitla stund með spaða eða öðru verkfæri að eigin vali, dembdu kartöflunum og brokkólíinu ofan í pönnuna og stráðu salti yfir. Svo steikirðu þetta eins og þú kannt best. Þegar kartöflurnar eru að detta í gylltar og brokkólíið ekki alveg grjóthart er tilvalið að slökkva undir pönnunni og gleymdu henni um stund og leyfðu þessu drasli að kólna.

Gríptu meðalstóra skál og ofan í henni skaltu píska saman:

4 stór egg

1/2 bolli af mjólk

1/2 tsk af salti

Eitthvað af pipar ef þú hneigist í þá átt.

Náðu í eldfast mót eða kökuform sem er sirka 28 cm í þvermál, skiptir ekkert sérstaklega miklu máli, það skiptir bara máli að smyrja það með smjöri eða eins og fagfólkið vil frekar, smjörlíki. Fikraðu þig í áttina að ísskápnum og náðu í andvana deigið. Hentu því yfir eldfasta mótið eða eitthvað bökufat eða rúllaðu það þynnra ef þú hefur trú á þunnu deigi og leggðu það svo í eldfasta dæmið eins og illa þefjandi deigteppið sem það er. Ofan í þessa deigu laug geturðu raðað kartöflunum, brokkólíinu og lauknum. Ef þú átt ostbita þá er fínt að rífa hann og gauka að kartöflunum og co. Helltu svo eggjagumsinu yfir þetta allt saman og settu rifinn ost yfir. Ég ætla ekki að mæla með magninu sem ég nota því það er ekki skynsamlegt. Ég hef talið mér trú um að kólestról komi mér ekki við og læknar mega eiga sín heilræði. Lifi ostur. Ég mun samt að öllum líkindum hætta að borða hann þegar ég þori loksins að komast að sannleikanum um ostagerð. Það er víst ekki fallegt. Disney myndi til dæmis aldrei gera mynd um ostagerð.

Stilltu klukku á 20-25 mínútur og horfðu á Simpsons eða Regular show þar til eggin hafa sest og deigið brúnast. Það gæti tekið lengri tíma, fer eftir ofninum sem þú átt. Ég á glataðan smeg ofn sem ég hélt að væri snilld en hann er það alls ekki, bara skítsæmó svo hann hentar mér ágætlega þar sem ég er í sama gæðaflokki þegar eldamennska er annars vegar. Smeg og Ottolenghi? Já, ég er snobbhæna en ég bæti það upp með því að vera arfaslappur kokkur.