Nýlenduskonsurnar eru nýlentar – Lóaboratoríum

Nýlenduskonsurnar eru nýlentar

Enskar skonsur

8 stk

1/2 klst bras, tilvalið fyrir fólk sem á erfitt með að skipuleggja fram í tímann

Hráefni

2 1/4 bolli hveiti + 2 msk (ég gleymdi þessum msk en ég held að það breyti litlu. Sjáum hvað setur)

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt 

1/3 bolli smjör skorið í teninga, kalt en ekki nýkomið úr ísskáp (þú um það, segi ég nú bara við manneskjuna sem skrifaði þessa uppskrift. Ég setti ískalt smjör)

3 1/2 msk flórsykur

1 egg

1 tsk vanilludropar

1/2 bolli rjómi (sem betur fer er hægt að nota nýmjólk í staðinn því að hver á rjóma bara?)

Smá mjólk til að pensla

Aðferð

  1. Hitaðu ofninn í 204°C á venjulegri stillingu uppi og niðri(ég skil ekki alveg stælana með þessar auka 4 gráður, örugglega einum of nákvæm þýðing úr fahrenheit. Sirka 200°C er amk fínt fyrir fáránlega ofninn minn.)
  2. Blandaðu hveiti lyftidufti, salti, smjöri og flórsykri saman í skál. Klíptu smjörið við þurrefnin þar til deigið lítur út eins og brauðmylsna.
  3. Náðu í aðra skál (ég tek þetta fram því ég var næstum búin að sulla öllu í þurrefna skálina). Hrærðu saman rjóma/mjólk, eggi og vanilludropum.
  4. Blandaðu mjólkurblöndunni við þurrefnamylsnuna.
  5. Hnoðaðu þetta í u.þ.b. 10 sekúndur til að gera deigið sléttara(ég gerði bara eitthvað)
  6. Stráðu smá hveiti á hreint borð og rúllað deiginu með kökukefli þar til það er sirka 4 cm þykkt. (Aðeins þykkara en lófinn á þér nema þú sért með mjög stórar hendur eða jafn þykkt og báðir lófarnir lagðir saman ef þú ert með mjög þunna lófa. Ég veit ekki hvort ég sé með óvenju þykka lófa. Náðu bara í reglustiku ef þú vilt nákvæmni. Mundu bara að það eiga að vera 8 skonsur svo þú getur sirkað það út svoleiðis)
  7. Notaðu kringlótt piparkökumót eða glasaaðferð Línu Langsokks og skerðu út 8 jafnar skonsur (eða 9 frekar litlar og tvær furðulega stórar eins og ég gerði). Það er betra að pressa glasið eða kringlótta piparkökumótið beint niður og lyfta því beint upp.
  8. Leggðu skonsurnar á bökunarplötu með léttsmurðum bökunarpappír (eða slepptu því að smyrja pappírinn, ég gleymdi því)
  9. Penslaðu mjólk á með pensli eða slettu bara smá mjólk með teskeið. (Pensillinn minn er eldgamall silikonpensill úr IKEA og örugglega krabbameinsvaldandi)
  10. Bakaðu í 15 mínútur á meðan er hægt að ganga frá eftir sig eða fara á netið og reyna að komast að því hvaðan Bretar stálu skonsum.

Ég vona að þú haldir ekki að ég sé tradwife sem geri ekkert annað en að baka skonsur og hanga í eldhúsinu eins og fangi á eigin heimili. Þegar ég nenni að baka þá verður uppi fótur og fit á heima hjá mér því það er sjaldséður viðburður. Ef aftur á móti barn í fjölskyldunni kemur til mín og segir: Mig langar í Nightmare before Christmas afmælisköku, þá ýti ég frá mér öllum verkefnum og skyldum og bruna í Kópavog og eyði mörgþúsund krónum í bökunarvörubúðum. Ég hef verið afmæliskökubakari fjölskyldunnar frá því að ég var 19 ára eða allt frá því að elsti systursonur minn bað mig um að gera Hómer Simpson köku. Hann  trúði því nefnilega að ég kynni allt og þá kunni ég að sjálfsögðu allt. Ég vona að kökurnar hafi bætt honum upp þann skaða sem ég olli honum með því að svara öllum spurningum af óþarflega mikilli hreinskilni. Einu sinni vorum við í sjoppunni á Laugaveginum sem er nú túristabúð. Þar inni voru menn í bláum kraftgöllum að kaupa sér appelsín í 1/2 lítra plastflöskum. Þeir þömbuðu appelsínið til hálfs og fylltu svo á með spíra. Vesalings afgreiðslustúlkan sagði ekki orð og systursonur minn starði á mennina. Þegar við komum út spurði hann hvað mennirnir hafi verið að bralla og ég útskýrði fyrir honum alkóhólisma og hvaða tilgangi bland þjónar. En þessi öðlingspiltur býr yfir meiri samkennd en heilt ráðuneyti svo ég hef ekki miklar áhyggjur af honum.