Síðasti farþeginn um borð í Ottolenghilestina – Lóaboratoríum

Síðasti farþeginn um borð í Ottolenghilestina

Ég fann þennan frábæra bloggfítus á síðunni og ætlaði að nýta hann til að æfa skriftir. Eftir að hafa tekið þessa mikilvægu ákvörðun stóð ég frammi fyrir því að vita ekki um hvað ég ætti að fjalla. Það eina sem ég geri, fyrir utan þarfir mínar, er að vinna og horfa á sjónvarpið og ég er nú þegar búin að redda mér vinnu sem sófakartafla nýja blaðsins sem heitir Heimildin. Sem betur fer kom tíu ára ósvífinn fjölskylduvinur mér óvænt til bjargar með því að tilkynna að sojahakkið sem ég eldaði væri ,,skammarlegt“ og ég ákvað því að 2023 yrði árið sem ég hætti að gera skammarlegan mat og er þar með komin með umfjöllunarefni fyrir árið. Markmiðið er að verða skítsæmilegur heimakokkur og hef ég ákveðið að fleygja mér í þetta með Ottolenghi sem trúarleiðtoga. Ég ætla að elda allar uppskriftirnar í Simple. Bók með þessu nafni lofar góðu (svartur skuggi líður yfir eldhúsið eins og illur fyrirboði)

Dagur 1

Linsubaunasúpa, ég held nú síður.

Helvítis! Getur verið að ég sé með talnablindu? Það myndi útskýra margt, meðal annars hvers vegna manneskja á mínum slöppu launum skuldar alltaf skattinum á hverju ári. Mér tókst auðvitað að lesa uppskriftina vitlaust og þessi glæsilega miðausturlenska linsubaunasúpa varð að kássu. Ég setti 400 grömm af linsubaunum í stað 150 gramma eins og stóð í uppskriftinni. Ég hefði líklega verið í minna uppnámi ef ekki væri fyrir þá tímafreku og satanísku aðgerð að þurfa að plokka lauf af 25 grömmum af kóríanderstilkum. Það hlýtur að vera til auðveldari aðferð en ég nenni ekki að gúgla það af því að þá missi ég fókusinn og fer að lesa um eitthvað rugl. Bless kóríander, komdu sæl gleymda franska leikkona. Ég fattaði ekki að það væri eitthvað að linsubaunasúpunni minni fyrr en ég reyndi að hræra í henni og hún leit út eins og þurr rófustappa. Af hverju þurfti ég að snobba fyrir Ottolenghi. Ég blaða í bókinni og kemst að því að ég þarf örugglega að fara til Kaupmannahafnar eða panta eitthvað á netinu ef ég ætla að redda mér þessum hráefnum. Svartur hvítlaukur?! Rólegur á stælunum herra minn. 

Dagur 2

Nánast fullur pottur af linsubaunakássu hlær að mér. Ég gerist djörf og prófa að steikja slummu af kássunni. Fyrst velti ég henni upp úr cheddarosti og útrunnum brauðraspi. Ekki svo slæmt ef ég drulla avókadósósunni, sem samferðamaður minn fékk í skóinn á Flórída, yfir þetta. Ég vona að nágranni minn líti ekki inn um gluggann og sjái þessa hryggðarmynd. Miðaldra kona borðar mistök.