Tvíburarnir Inga og Baldur eru komnir í sumarfrí. Á dagskránni er að drekka kókómalt, glápa á teiknimyndir og slappa af með tilþrifum. Fyrirætlanir þeirra virðast ætla að fjúka út í veður og vind þegar Albert, nágranni þeirra af efstu hæðinni, birtist óvænt í heimsókn hjá þeim. Honum er augljóslega mikið niðri fyrir. Systkinin hafa enga þolinmæði gagnvart þessari hindrun í vegi þeirra en eftir því sem Albert segir þeim meira frá vandamáli, sem hann stendur frammi fyrir, er forvitni þeirra vakin.
Í þessari bráðskemmtilegu, fyndnu og fjörugu bók, sem segir frá ólíklegri vináttu, liggur leiðin allt frá blokkaríbúð í Reykjavík til Ísafjarðar, Alpanna, Guatemala, Glimmerfjalla og síðast en ekki síst – til Grísafjarðar! Bókin hlaut tilnefningu til Norrænu barna- og ungmennabókverðlaunanna ásamt því að hafa verið valin barnabók ársins af bóksölum og Morgunblaðinu.